Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1342  —  731. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um mat á menntun innflytjenda til starfsréttinda í heilbrigðisstétt.


     1.      Hvaða stofnanir á málefnasviði ráðuneytisins koma að mati á menntun innflytjenda til starfsréttinda í heilbrigðisstétt?
    Sú stofnun sem ber ábyrgð á mati á menntun innflytjenda til starfsréttinda í heilbrigðisstétt er embætti landlæknis. Aðrir sem koma að mati á menntun innflytjenda til starfsréttinda í heilbrigðisstétt á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins eru Landspítali, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, fagráð sjúkraflutninga, fagráð landlæknis um áfengis- og vímuefnaráðgjafa og eftir atvikum aðrar heilbrigðisstofnanir.
    Embætti landlæknis tekur á móti öllum umsóknum um starfsleyfi innan löggiltrar heilbrigðisstétta hér á landi og leggur mat á þær. Sama á við um umsóknir um sérfræðileyfi innan löggiltra heilbrigðisstétta. Embætti landlæknis fer yfir umsóknir og óskar eftir frekari gögnum ef þau vantar. Mismunandi meðferð er á umsóknum innflytjenda eftir því hvort samningar eru í gildi um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi milli Íslands og þess ríkis sem umsækjandi kemur frá eða hefur menntun frá. Sé í gildi samningur sem nær yfir þá heilbrigðisstétt sem umsókn um starfsleyfi beinist að er afgreiðsla umsóknar einfaldari en ella og í sumum tilvikum er hægt að staðfesta menntun eða starfsleyfi frá heimaríki eða námsríki umsækjanda. Það á við ef um er að ræða svokallaða samræmda stétt þar sem lágmarkskröfur til að uppfylla skilyrði um starfsleyfi hafa verið samræmdar milli samningsríkja. Sé ekki slíkur samningur í gildi við heimaríki eða námsríki umsækjanda er ávallt óskað umsagnar frá umsagnaraðila.
    Þegar embætti landlæknis þarf að afla umsagnar um umsókn, um starfsleyfi sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi, leitar embættið til annarra en stofnana á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins. Um umsagnaraðila er kveðið á í reglugerðum um starfsleyfi í hverri heilbrigðisstétt fyrir sig. Meginreglan er sú að leitað er til þeirrar menntastofnunar sem býður upp á nám til starfsleyfis í viðkomandi stétt hér á landi. Nám sumra löggiltra heilbrigðisstétta er ekki í boði hér á landi og er þá yfirleitt leitað til fagfélags viðkomandi heilbrigðisstéttar. Undantekningar frá þessu eru þegar sérstök fagráð eru umsagnaraðilar. Umsagnaraðilar eru því yfirleitt ekki stofnanir sem heyra undir málefnasvið heilbrigðisráðuneytisins en fagráð sjúkraflutninga og fagráð áfengis- og vímuefnaráðgjafa eru á málefnasviði ráðuneytisins.
    Sé um að ræða umsókn um sérfræðileyfi í sérgrein í læknisfræði þá er leitað umsagnar kennsluráðs viðkomandi sérgreinar hér á landi, eða framhaldsmenntunarráðs lækninga. Kennsluráð og framhaldsmenntunarráð heyra undir Landspítala nema kennsluráð heimilislækninga heyrir undir Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, sem eru hvort tveggja stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins.
    Embætti landlæknis getur ákveðið að umsækjandi þurfi að ljúka aðlögunartíma á tímabundnu starfsleyfi eða sérfræðileyfi til þess að unnt sé að leggja mat á það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir leyfi. Umsækjanda er þá heimilt að ráða sig í starf á tímabundnu leyfi til aðlögunar, á heilbrigðisstofnun eða stofu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns. Á aðlögunartíma leggur heilbrigðisstofnun eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmaður mat á hæfni umsækjanda til að starfa í viðkomandi heilbrigðisstétt.
    Ekki eru í lögum eða reglum lagðar takmarkanir á það hvaða heilbrigðisstofnanir geti lagt mat á hæfni umsækjanda um starfsleyfi á aðlögunartíma. Þær stofnanir sem koma að mati á hæfni umsækjanda á aðlögunartíma geta því eftir atvikum verið allar heilbrigðisstofnanir og starfstofur sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks.

     2.      Við hvaða stofnanir á embætti landlæknis samstarf við mat á menntun innflytjenda?
    Umsagnaraðilar eru oftast menntastofnanir. Um er að ræða ýmsar deildir og námsbrautir innan Háskóla Íslands, Fjölbrautaskólans við Ármúla, Háskólans á Akureyri, Menntaskólans í Kópavogi og eftir atvikum aðrar menntastofnanir hér á landi sem mennta heilbrigðisstarfsfólk. Varðandi umsóknir um starfsleyfi í heilbrigðisstéttum, sem ekki er unnt að stunda nám í hér á landi, er yfirleitt leitað umsagnar frá fagfélagi viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi eða sérstöku fagráði eins og að framan greinir.
    Þá getur ENIC/NARIC-skrifstofa Háskóla Íslands aðstoðað við að staðfesta að sú menntastofnun erlendis, sem umsækjandi byggir umsókn sína um starfsleyfi á, sé viðurkennd sem slík menntastofnun í því ríki og hér á landi.